Monday, February 29, 2016

Vikumatseðill 29 febrúar - 6 mars

Enn ein helgin að baki og tíminn flaug áfram. Við áttum mjög góða helgi eftir veikindaviku heima fyrir, það var kærkomið að komast aðeins út og sérstaklega fyrir Ingibjörgu Rósu sem þráði að komast aðeins út að leika. Við höfum sagt skilið við pestir og tökum ekki á móti fleirum, nú tökum við hins vegar á móti hækkandi sól takk fyrir pent:)

Hér koma hugmyndir að vikuseðlinum sem ég vona að nýtist ykkur vel. 

Mánudagar eru fiskidagar samkvæmt mínum bókum og það er tilvalið að hefja vikuna á þessu gómsæta salati með ofnbökuðum laxi og sætum kartöflum. 

Á köldum dögum er fátt betra en góð og matarmikil súpa, frönsk lauksúpa er ein af þeirra og hún er virkilega bragðmikil. Ef þið hafið ekki smakkað hana nú þegar þá er tími til kominn á þriðjudaginn:)

Þetta er einn af mínum eftirlætis núðluréttum, þessi réttur er stútfullur af góðgæti og er borin fram með bragðmikill wasabi sósu.

Einfaldur og góður steiktur karrífiskur er frábær á fimmtudagskvöldi, borin fram með jógúrtsósu og fersku grænmeti. 

Föstudagar eru pizzadagar og hér má finna þrjár ljúffengar pizzur sem þið ættuð að prófa til dæmis þessi pizza með forsteiktu beikoni og rjómaosti. 

Um helgina ættuð þið að prófa að hægelda lambalæri með öllu tilheyrandi. 

Helgarbaksturinn er þessi fallega og einfalda Silvíukaka sem allir elska. 

Ég vona að þið eigið stórgóða viku framundan. 
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 





No comments:

Post a Comment