Saturday, April 30, 2016

Kotasælubollur og bráðhollt túnfiskssalat

Á morgnana og þá sérstaklega um helgar elska ég að baka morgunverðarbollur í ró og næði. Það gefst ekki mikill tími til baksturs á morgnana á virkum dögum en ég nýt þess í botn á laugardögum, að hella upp á gott kaffi og baka brauð í rólegheitum. En takið eftir að hér er ég að lýsa fullkomnum laugardegi, þeir byrja nú ekki allir svona. Ég fékk svo góðar bollur hjá vini okkar í morgunkaffi um daginn en þær bollur innhéldu kotasælu. Ég hef ekki hætt að hugsa um bollurnar sem ég fékk í morgunkaffinu og ákvað þess vegna að prófa mig áfram í morgunbollubakstri með kotasælu. 

Kotasælan gerir það að verkum að bollurnar verða dunmjúkar og góðar, ég elska kotasælu og nota hana mjög mikið en hafði aldrei prófað hana í brauðbakstur. Hún kom skemmtilega á óvart og þessar bollur eru æðislegar, ég gaf meðal annars foreldrum mínum og tengdaforeldrum bollur og voru þau ansi hrifin.  Ekki færu þau að plata :) 

Hér kemur uppskriftin að kotasælubollum og bráðhollu túnfiskssalati sem ég geri oft og þykir alltaf svakalega gott. 

Morgunverðarbollur með kotasælu

Brauðbakstur 
Einfalt 
Tími frá byrjun til enda:  90 mínútur 
Uppskriftin gefur ca. 22 bollur (fer eftir stærðinni sem þið kjósið) 

Hráefni 
  • 100 g brætt smjör
  • 4 dl nýmjólk
  • 1 bréf þurrger (12 g bréfið)
  • 1 msk hunang
  • 1 tsk salt
  • 400 g kotasæla
  • ca. 900 g + aðeins meira KORNAX hveiti
Aðferð:
  1. Bræðið smjör í potti, bætið mjólkinni, þurrgerinu og hunanginu saman við og hrærið vel saman.
  2. Hellið blöndunni í hrærivélaskál ásamt saltinu, kotasælunni og hveitinu.
  3. Hnoðið deigið í hrærivélinni í um það bil 8 mínútur. (Það tekur aðeins lengri tíma að gera það í höndunum)
  4. Stráið hveiti á borðflöt og hnoðið deigið í smá stund með höndunum og mótið eina stóra kúlu.
  5. Færið kúluna yfir í hreina skál og leggið viskastykki yfir skálina. Leyfið deiginu að hefast í rúmlega klukkustund eða þar deigið hefur tvöfaldast að stærð.
  6. Hitið ofninn í 200°C (blástur)
  7. Skiptið deiginu niður í jafn stóra bita og mótið bollurnar.
  8. Leggið bollurnar á pappírsklædda ofnplötu.
  9. Penslið bollurnar með eggi og sáldrið birkifræjum yfir.
  10. Bakið við 200°C í 15 mínútur.

Gott túnfiskssalat er algjört sælgæti, ég elska þessa uppskrift þar sem hún er afar einföld og alls ekki óholl. Mér finnst stundum þegar ég kaupi tilbúið túnfiskssalat út í búð að það sé alltof mikið af majónesi í salatinu, ekki það að ég borði ekki majónes en það má ekki yfirgnæfa salatið. Þessi útgáfa er ekki bara góð heldur er hún líka bráðholl- ég segi ykkur það satt. 

Létt og gott túnfiskssalat 

  • 1 dós túnfiskur í olíu (olían sigtuð frá)
  • 3 msk sýrður rjómi (ég nota frá MS í bláu dósinni)
  • 1/2 rauð paprika 
  • 1/2 rauðlaukur 
  • 2 harðsoðin egg 
  • Salt og nýmalaður pipar 
Aðferð: 
  1. Byrjið á því að sjóða eggin í 5 - 6 mínútur, kælið eggin svo í köldu vatni áður en þið skerið þau afar smátt. 
  2. Skerið papriku og rauðlauk afar smátt niður. 
  3. Blandið öllum hráefnum saman og kryddið til með salti og pipar. 
  4. Best er að geyma salatið í kæli í lágmark hálftíma áður en þið ætlið að bera það fram. 
Salatið er himneskt með þessum morgunverðarbollum!


Njótið vel og ég vona að þið eigið góða helgi framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


 Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups


Friday, April 29, 2016

Tryllingslega gott humarsalat með mangósósu

Þetta humarsalat er sannkallað lúxussalat þegar við viljum gera sérlega vel við okkur. Ég gjörsamlega elska þetta salat og gæti borðað það í öll mál... en þið vitið, maður borðar víst ekki humar í öll mál :) Ég hvet ykkur til þess að prófa það og þá sér í lagi ef þið eigið von á góðum gestum, þá er bókað mál að þið sláið í gegn. 

Humarsalat með mangósósu og ristuðum furuhnetum

Einföld matreiðsla 
Áætlaður tími frá byrjun til enda: 40 mínútur 
Fyrir 3-4 
  • Gott salat t.d. klettasalat og lambhagasalat
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 1 askja jarðarber ca. 10 stk
  • ½ melóna (má vera hvaða tegund sem er)
  • 1 mangó
  • ½ rauðlaukur
  • ½ rauð paprika
  • 600 g humar, skelflettur
  • smjör
  • ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ chili
  • 1 tsk fersk smátt söxuð steinselja
  • 1 poki furuhnetur

Aðferð:
  1. Skerið öll hráefnin smátt niður og blandið saman í skál eða leggið á fat.
  2. Skolið humarinn vel og þerrið, steikið upp úr olíu og smjöri ásamt pressuðum hvítlauk, smátt skornu chili og ferskri steinselju. 
  3. Steikið humarinn í 3 – 4 mínútur. Setjið humarinn þá strax yfir salatið.
  4. Sáldrið ristuðum furuhnetum yfir í lokin ásamt nokkrum skeiðum af sósunni.

Hvítlaukssósa með mangó
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ½ mangó
  • 2 msk majónes
  • 1 hvítlauksrif
  • ¼ rautt chili
  • salt og pipar
  • 1 tsk hunang

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefni í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Gott er að kæla sósuna í hálftíma áður en þið berið hana fram. 

Njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

Brúsketta með sítrónurjómaosti og reyktum laxi

Í gærkvöldi var sérstakt sítrónuþema í Matargleðinni og ég útbjó þessar sjúklega einföldu brúskettur sem eru tilvaldar í sumar, sem forréttur eða bara sem léttur kvöldverður.  Gott brauð, rjómaostur og reyktur lax fara einstaklega vel saman. Það tekur líka enga stund að skella í þessar einföldu og bragðgóðu brúskettur, sumsé þið eigið eftir að elska þær. 

Ljúffengt laxabrauð með sítrónurjómaosti

Einföld matreiðsla 
Áætlaður tími frá byrjun til enda: 20 mínútur
Fyrir 3-4 
  • 1 gott brauð t.d. súrdeigsbrauð
  • reyktur lax, í sneiðum
  • 200 g rjómaostur, hreinn
  • salt og pipar
  • safi af hálfri sítrónu
  • börkur af hálfri sítrónu
  • 1 msk smátt saxaður graslaukur
  • Klettasalat
  • Ólífuolía
  • Hreinn fetaostur
  • Sítrónubátar

Aðferð:
  1. Skerið gróft brauð í sneiðar og leggið í eldfast mót, sáldrið ólífuolíu yfir og bakið í ofni við 200°c í 4-5 mínútur.
  2. Hrærið saman rjómaosti, salti, pipar, sítrónusafa, sítrónuberki og graslauk í skál.
  3. Smyrjið vel af rjómaostinum á hverja brauðsneið og leggið klettasalatið og laxinn yfir.
  4. Myljið fetaost yfir í lokin ásamt því að saxa niður graslauk og skreytið brauðið með honum.
  5. Berið brauðið fram með sítrónubátum.


Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.




Thursday, April 28, 2016

Vanillu- og sítrónukaka úr Matargleði Evu

Í lokaþætti Matargleðinnar var sérstakt sítrónuþema (mögulega tileinkað Beyoncé). Ég bakaði meðal annars þessa æðislegu vanillu- og sítrónuköku sem er í miklu uppáhaldi. Mjög sumarleg og sæt - mæli með að þið prófið hana. 

Vanillu-og sítrónukaka með ferskum berjum


  • Bakstur 
  • Áætlaður tími frá byrjun til enda: 2 tímar 
  • Fyrir 8-10 einstaklinga

  • 200 g smjör
  • 200 g sykur
  • 4 egg
  • 300 g hveiti
  • 2 tsk vanillusykur 
  • 2 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 5 msk ferskur sítrónusafi
  • börkur af hálfri sítrónu
Aðferð:

  1. Stillið ofninn í 180°C (blástur)
  2. Þeytið saman sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós.
  3. Bætjum eggjum saman við, einu í einu.
  4. Blandið þurrefnum saman í skál og bætið síðan við eggjablönduna, ásamt sítrónusafa og sítrónuberki. 
  5. Hrærið deigið þar til það verður silkimjúkt.
  6. Skiptið deiginu niður í tvö smurð form og bakið við 180°C í 22-25 mínútur.
  7. Kælið botnanna mjög vel áður en þið setjið á þá krem!

Ljúffengt sítrónusmjörkrem

  • 250 g mjúkt smjör
  • 500 g flórsykur
  • 3 msk sítrónusafi
  • 1 tsk sítrónubörkur, eða minna
  • 1 msk rjómi
  • 100 g hvítt súkkulaði
Aðferð:

  1. Þeytið saman smjör og flórsykur í 2 – 3 mínútur.
  2. Bætið sítrónusafanum, sítrónuberki, rjóma og bræddu hvítu súkkulaði saman við og þeytið áfram í 4 – 5 mínútur. Því lengur sem þið þeytið kremið því léttara og betra verður það.
  3. Smyrjið kreminu á milli botnanna og skreytið með allskyns ferskum berjum. Sigtið gjarnan smá flórsykri yfir kökuna í lokin.




Njótið vel.
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups

Tuesday, April 26, 2016

Sumarlegt kjúklingasalat með Mexíkó-ostasósu

Nú er sumarið gengið í garð og með hækkandi sól skiptum við út þungum vetrarmat yfir í léttari og sumarlegri rétti. Kjúklingasalöt flokkast að mínu mati undir sumarlega rétti en þau eru bæði svakalega góð og einföld, auðvelt að blanda góðum hráefnum saman á örfáum mínútum. Ég elska þetta einfalda og góða salat sem ég útbjó um daginn, ég hef ekki hætt að hugsa um það síðan ég borðaði það. Sem betur fer fæ ég til mín góða gesti í kvöldmat í kvöld og ætla að hafa þetta salat á boðstólnum.  Sósan setur punktinn yfir i-ið en það er létt mexíkó-ostasósa sem passar fullkomnlega með kjúklingnum og Doritos snakkinu. 

Sumarsalatið 2016, gjörið þið svo vel. 

Sumarlegt kjúklingasalat með Mexíkó-ostasósu 


  • Einföld matreiðsla 
  • Áætlaður tími frá byrjun til enda: 30 mínútur
  • Fyrir 3-4 
Hráefni 
  • 2 kjúklingarbringur 
  • 1 msk ólífuolía
  • Salt og nýmalaður pipar 
  • 2 msk Fajitas kryddblanda (er í pokum)
  • 1 poki blandað kál 
  • 1/4 Iceberg höfuð 
  • 1 rauðlaukur 
  • 1 lárpera 
  • 6-8 jarðarber
  • 6-8 kirsuberjatómatar 
  • Jalepeno, valfrjálst og magn eftir smekk 
  • Doritos, magn eftir smekk 
Aðferð: 
  1. Stillið ofninn í 180°C.
  2. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið bringurnar í 2 mínútur á hvorri hlið, kryddið til með salti, pipar og Fajitas kryddblöndu. 
  3. Setjið kjúklingabringurnar í eldfast mót og eldið í ofni við 180°C í 22 mínútur. 
  4. Skerið öll hráefnin sem talin eru upp hér að ofan fremur smátt og blandið vel saman í skál. Þegar kjúklingabringurnar eru tilbúnar þá eru þær einnig skornar í litla bita og bætt út á salatið. 
  5. Ljúffenga ostasósan er síðan dreifð yfir ásamt Doritos flögum, en mér finnst æðislega gott að mylja Doritos út á salöt en þá verður salatið svo stökkt og gott. 
  6. Berið strax fram og njótið vel.
P.s. ef það verður afgangur sem er heldur ótrúlegt - þá er gott að setja salatið í tortillakökur og útbúa vefjur sem hægt er að borða daginn eftir! 

Mexíkó-ostasósan sem allir ættu að prófa 
  • 1 dós sýrður rjómi, í bláu dósinni frá MS
  • 1/2 Mexíkó-ostur 
  • Salt og pipar
Aðferð:
  1. Rífið ostinn niður með rifjárni. 
  2. Setjið ostinn og sýrða rjómann í skál og maukið með töfrasprota eða notið matvinnsluvél ef þið viljið það heldur. 
  3. Kryddið sósuna til með salti og pipar. Ef ykkur finnst sósan of þykk þá getið þið bætt aðeins meira af sýrðum rjóma saman við. Sósan er æðislega góð og ég notaði hann einnig sem ídýfu fyrir Doritos snakkið. 





Njótið vel.

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefnin sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.


Monday, April 25, 2016

Púðursykurmarens með kókosbollurjóma og karamellusósu

Um helgina bakaði ég þessa marensköku með kókosbollurjóma og karamellukremi. Já, hún er eins góð og hún hljómar! Afi minn átti afmæli um helgina og hittumst við fjölskyldan og áttum góða stund saman, ég ákvað þess vegna að skella í eina marensbombu þar sem marensinn er afar vinsæll í okkar fjölskyldu. Marensbakstur er afar einfaldur og það er svo auðvelt að skella saman í góða köku, útkoman verður alltaf dásamleg. Ég LOFA ykkur því að hún er ofsalega bragðgóð og á eftir að slá í gegn... hún allra hitaeiningana virði.

Púðursykurmarens með kókosbollurjóma og karamellusósu

  • Bakstur 
  • Áætlaður tími frá byrjun til enda: 2 tímar 
  • Fyrir 8-10 einstaklinga

Botnar
  • 5 eggjahvítur
  • 1 dl sykur 
  • 3 1/2 dl púðursykur
Aðferð: 
  1. Hitið ofninn í 150°C
  2. Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum saman við í nokkrum skömmtum. Stífþeytið þar til blandan hreyfist ekki til í skálinni sé henni hvolft. 
  3. Setjið bökunarpappír á ofnplötu eða bökunarpappír í botninn á tveimur 22 cm lausbotna formum og smyrjið þá hliðarnar með smjöri. 
  4. Skiptið marensblöndunni á bökunarpappírinn eða í formin og bakið í 50-60 mínútur við 150°C. Kælið botnana mjög vel áður en þið setjið kókosbollurjóma á milli. 
Kókosbollurjómi 
  • 450 ml rjómi 
  • 2 tsk flórsykur 
  • 1 tsk vanillusykur
  • 4 kókosbollur 
  • 100 g karamellukurl 
  • Smátt skornir ávextir, ca 1 dl. t.d. jarðarber, bláber og hindber
Aðferð: 
  1. Þeytið rjóma og bætið flórsykri og vanillu saman við.
  2. Þrýstið á kókosbollurnar og skerið þær í litla bita, blandið þeim varlega saman við rjómann ásamt karamellukurli og ávöxtum. 
  3. Smyrjið rjómanum á milli botnanna. 
Karamellusósa 
  • 1 poki Góa kúlur 
  • 1 dl rjómi 
Aðferð: 
  1. Bræðið kúlurnar í rjómanum við vægan hita, hrærið vel í og kælið áður en þið hellið yfir marenskökuna. Það er mjög mikilvægt annars gæti marensinn og rjóminn bráðnað (það er ekkert sérlega skemmtilegt)
  2. Skreytið kökuna með berjum t.d. jarðarberjum, hindberjum og bláberjum. 

Ég mæli með að þið skellið í þessa um helgina.

Rjómakveðjur

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Æðisleg bleikja í teriyaki sósu með ristuðum sesamfræjum


Korter í kvöldmat er nýr liður á blogginu en í þessum færslum ætla ég að deila með ykkur einföldum og ofur góðum uppskriftum sem eiga það sameiginlegt að vera mjög fljótlegar. Fyrsti rétturinn sem ég ætla að deila með ykkur er ljúffeng bleikja í teriyaki sósu. Ég eldaði þennan rétt í síðustu viku, þá var ég í próflestri og hafði ekki langan tíma til þess að stússast í matargerðinni. Það kannast eflaust flestir við að lenda einhvern tímann í tímaþröng um kvöldmatarleytið og það þarf ekki endilega að koma niður á gæði matarins, við þurfum bara að velja fljótlega og einfalda rétti og þessi er einn af þeim. 

Bleikja í Teriyaki sósu með ristuðum sesamfræjum


  • Einföld matargerð
  • Áætlaður tími frá byrjun til enda: 15 mínútur
  • Fyrir 2
Hráefni:
  • 2 flök Klaustursbleikja 
  • 1 msk ólífuolía + 1 tsk smjör 
  • Salt og pipar 
  • 4 - 5 msk Teriyaki sósa 
  • 1 stilkur vorlaukur 
  • 2 - 3 msk hreinn fetaostur frá MS
  • Ristuð sesamfræ
Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 180°C. 
  2. Hitið olíu og smjör á pönnu, steikið bleikjuna með roðið niður í 2-3 mínútur. Kryddið til með salti og pipar. 
  3. Penslið fiskinn með Teriyaki sósu, ca. 1 - 2 msk á hvert bleikjuflak. 
  4. Setjið bleikjuflakið í eldfast mót, sáldrið hreinum fetaosti yfir flakið og bakið við 180°C í 5-7 mínútur.
  5. Þegar fiskurinn kemur út úr ofninum dreifið þá ristuðum sesamfræjum yfir hann og myljið niður meiri fetaost. Einnig er gott að saxa niður vorlauk og dreifa yfir fiskinn.
  6. Berið bleikjuna fram með fersku salati - einfalt og gott!

Njótið vel og ég vona að þið eigið stórgóða viku framundan. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.