Á morgnana og þá sérstaklega um helgar elska ég að baka morgunverðarbollur í ró og næði. Það gefst ekki mikill tími til baksturs á morgnana á virkum dögum en ég nýt þess í botn á laugardögum, að hella upp á gott kaffi og baka brauð í rólegheitum. En takið eftir að hér er ég að lýsa fullkomnum laugardegi, þeir byrja nú ekki allir svona. Ég fékk svo góðar bollur hjá vini okkar í morgunkaffi um daginn en þær bollur innhéldu kotasælu. Ég hef ekki hætt að hugsa um bollurnar sem ég fékk í morgunkaffinu og ákvað þess vegna að prófa mig áfram í morgunbollubakstri með kotasælu.
Kotasælan gerir það að verkum að bollurnar verða dunmjúkar og góðar, ég elska kotasælu og nota hana mjög mikið en hafði aldrei prófað hana í brauðbakstur. Hún kom skemmtilega á óvart og þessar bollur eru æðislegar, ég gaf meðal annars foreldrum mínum og tengdaforeldrum bollur og voru þau ansi hrifin. Ekki færu þau að plata :)
Hér kemur uppskriftin að kotasælubollum og bráðhollu túnfiskssalati sem ég geri oft og þykir alltaf svakalega gott.
Morgunverðarbollur með kotasælu
Brauðbakstur
Einfalt
Tími frá byrjun til enda: 90 mínútur
Uppskriftin gefur ca. 22 bollur (fer eftir stærðinni sem þið kjósið)
Hráefni
Aðferð:
- 100 g brætt smjör
- 4 dl nýmjólk
- 1 bréf þurrger (12 g bréfið)
- 1 msk hunang
- 1 tsk salt
- 400 g kotasæla
- ca. 900 g + aðeins meira KORNAX hveiti
- Bræðið smjör í potti, bætið mjólkinni, þurrgerinu og hunanginu saman við og hrærið vel saman.
- Hellið blöndunni í hrærivélaskál ásamt saltinu, kotasælunni og hveitinu.
- Hnoðið deigið í hrærivélinni í um það bil 8 mínútur. (Það tekur aðeins lengri tíma að gera það í höndunum)
- Stráið hveiti á borðflöt og hnoðið deigið í smá stund með höndunum og mótið eina stóra kúlu.
- Færið kúluna yfir í hreina skál og leggið viskastykki yfir skálina. Leyfið deiginu að hefast í rúmlega klukkustund eða þar deigið hefur tvöfaldast að stærð.
- Hitið ofninn í 200°C (blástur)
- Skiptið deiginu niður í jafn stóra bita og mótið bollurnar.
- Leggið bollurnar á pappírsklædda ofnplötu.
- Penslið bollurnar með eggi og sáldrið birkifræjum yfir.
- Bakið við 200°C í 15 mínútur.
Gott túnfiskssalat er algjört sælgæti, ég elska þessa uppskrift þar sem hún er afar einföld og alls ekki óholl. Mér finnst stundum þegar ég kaupi tilbúið túnfiskssalat út í búð að það sé alltof mikið af majónesi í salatinu, ekki það að ég borði ekki majónes en það má ekki yfirgnæfa salatið. Þessi útgáfa er ekki bara góð heldur er hún líka bráðholl- ég segi ykkur það satt.
Létt og gott túnfiskssalat
- 1 dós túnfiskur í olíu (olían sigtuð frá)
- 3 msk sýrður rjómi (ég nota frá MS í bláu dósinni)
- 1/2 rauð paprika
- 1/2 rauðlaukur
- 2 harðsoðin egg
- Salt og nýmalaður pipar
Aðferð:
- Byrjið á því að sjóða eggin í 5 - 6 mínútur, kælið eggin svo í köldu vatni áður en þið skerið þau afar smátt.
- Skerið papriku og rauðlauk afar smátt niður.
- Blandið öllum hráefnum saman og kryddið til með salti og pipar.
- Best er að geyma salatið í kæli í lágmark hálftíma áður en þið ætlið að bera það fram.
Salatið er himneskt með þessum morgunverðarbollum!
Njótið vel og ég vona að þið eigið góða helgi framundan.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups
No comments:
Post a Comment