Tuesday, April 26, 2016

Sumarlegt kjúklingasalat með Mexíkó-ostasósu

Nú er sumarið gengið í garð og með hækkandi sól skiptum við út þungum vetrarmat yfir í léttari og sumarlegri rétti. Kjúklingasalöt flokkast að mínu mati undir sumarlega rétti en þau eru bæði svakalega góð og einföld, auðvelt að blanda góðum hráefnum saman á örfáum mínútum. Ég elska þetta einfalda og góða salat sem ég útbjó um daginn, ég hef ekki hætt að hugsa um það síðan ég borðaði það. Sem betur fer fæ ég til mín góða gesti í kvöldmat í kvöld og ætla að hafa þetta salat á boðstólnum.  Sósan setur punktinn yfir i-ið en það er létt mexíkó-ostasósa sem passar fullkomnlega með kjúklingnum og Doritos snakkinu. 

Sumarsalatið 2016, gjörið þið svo vel. 

Sumarlegt kjúklingasalat með Mexíkó-ostasósu 


  • Einföld matreiðsla 
  • Áætlaður tími frá byrjun til enda: 30 mínútur
  • Fyrir 3-4 
Hráefni 
  • 2 kjúklingarbringur 
  • 1 msk ólífuolía
  • Salt og nýmalaður pipar 
  • 2 msk Fajitas kryddblanda (er í pokum)
  • 1 poki blandað kál 
  • 1/4 Iceberg höfuð 
  • 1 rauðlaukur 
  • 1 lárpera 
  • 6-8 jarðarber
  • 6-8 kirsuberjatómatar 
  • Jalepeno, valfrjálst og magn eftir smekk 
  • Doritos, magn eftir smekk 
Aðferð: 
  1. Stillið ofninn í 180°C.
  2. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið bringurnar í 2 mínútur á hvorri hlið, kryddið til með salti, pipar og Fajitas kryddblöndu. 
  3. Setjið kjúklingabringurnar í eldfast mót og eldið í ofni við 180°C í 22 mínútur. 
  4. Skerið öll hráefnin sem talin eru upp hér að ofan fremur smátt og blandið vel saman í skál. Þegar kjúklingabringurnar eru tilbúnar þá eru þær einnig skornar í litla bita og bætt út á salatið. 
  5. Ljúffenga ostasósan er síðan dreifð yfir ásamt Doritos flögum, en mér finnst æðislega gott að mylja Doritos út á salöt en þá verður salatið svo stökkt og gott. 
  6. Berið strax fram og njótið vel.
P.s. ef það verður afgangur sem er heldur ótrúlegt - þá er gott að setja salatið í tortillakökur og útbúa vefjur sem hægt er að borða daginn eftir! 

Mexíkó-ostasósan sem allir ættu að prófa 
  • 1 dós sýrður rjómi, í bláu dósinni frá MS
  • 1/2 Mexíkó-ostur 
  • Salt og pipar
Aðferð:
  1. Rífið ostinn niður með rifjárni. 
  2. Setjið ostinn og sýrða rjómann í skál og maukið með töfrasprota eða notið matvinnsluvél ef þið viljið það heldur. 
  3. Kryddið sósuna til með salti og pipar. Ef ykkur finnst sósan of þykk þá getið þið bætt aðeins meira af sýrðum rjóma saman við. Sósan er æðislega góð og ég notaði hann einnig sem ídýfu fyrir Doritos snakkið. 





Njótið vel.

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefnin sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.


No comments:

Post a Comment