Sumir dagar eru ansi þéttir og mikið sem þarf að gera, en það þýðir þó ekki að sleppa við að hafa eitthvað gott í kvöldmatinn. Það er alltaf hægt að finna smá tíma fyrir matargerð. Að búa til einfalt og matarmikið salat tekur ekki lengri tíma en 20 mínútur. Þetta salat geri ansi oft, geri það nú sjaldan eins en mér finnst þessi útgáfa eiginlega sú besta.
Kjúklingasalat
Fyrir u.þ.b. 3 - 4 manns
2 kjúklingabringur
1 poki af blönduðu salati, pokinn var 200 g
100 g Tagliatelle
1/2 agúrka
1 græn paprika
1 rauð paprika
1/2 rauðlaukur
10 kirsuberjatómatar
1/2 krukka fetaostur, gott að setja smá af olíuna líka
rifinn parmesan ostur, magn eftir smekk
1 askja jarðaber
mulið nachos með saltbragði, magn eftir smekk
1 1/2 msk balsamikedik
2 msk sweet chili sósa
sesam fræ, magn eftir smekk
salt og pipar
1. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. (Ég læt alltaf salt og smá ólífuolíu í pottinn) Þegar að það er tilbúið, losið þá allt vatn frá og setjið pastað inn í ísskáp í örfáar mínútur.
2. Skerið kjúklingabringuna í litla bita, hitið olíu á pönnu og steikið hana við vægan hita. Kryddið til með smá salt og pipar. Þegar að bringan er að verða tilbúin bætið þá sweet chili sósunni og sesamfræjum saman við, hrærið vel í. Ég bætti 1 msk af vatni saman við líka og leyfði þessu að malla við mjög lágan hita í 1 - 2 mínútur.
3. Skerið grænmetið smátt niður, ég reif gúrkuna niður með rifjárni. Skolið allt saman vel og blandið þessu saman í skál.
4. Bætið kjúklingabringunni, balsamik edikinu, fetaostinum og jarðaberjum saman við. Blandið vel saman og kryddið með smá salti og pipar.
5. Stráið salatinu á fat, myljið nachos yfir og rífið duglega af ferskum parmesan ost og stráið yfir.
Litríkt og fallegt salat.
Berið salatið gjarnan með fram með brauði, pestó og ef til vill salat dressingu. Að vísu reyni ég að sleppa því að nota dressingu því þær eiga það til að vera svo sterkar og stela því bragðinu af yndislega grænmetinu. Kjúklingurinn á líka að vera ansi vel kryddaður, sweet chili sósan er ansi sterk og fín.
Fljótlegt og ljúffengt salat á þessu heimili í kvöld, ég get varla beðið eftir því að gæða mér á salatinu. Plan kvöldsins er að læra og fara svo í göngutúr, haustið er svo kósí og veðrið dásamlegt. Gott ef það er ekki bara tilefni til þess að fá sér heitt súkkulaði eftir göngutúrinn, ég er nú hrædd um það. Ég á allavega súkkulaði, kanilstangir og negulnagla upp í skáp svo mér finnst það mjög líklegt að ég gæði mér á ljúffengu jóla-súkkulaði í kvöld. Sagði ég jóla? Já hvort ég gerði. Ég er farin að hlakka til.
Ég ætla þó ekki að tala meira um jólin í þetta sinn.
Ég mæli með þessu salati kæru vinir og ég vona að þið eigið eftir að eiga notalegt kvöld
xxx
Eva Laufey Kjaran
ok, kannski pínu sein að skrifa athsemd hérna, ennn ég er búin að vera að leita að hugmyndum fyrir picnic, ætli þetta salat sé ekki gott kalt? svona ef maður blandar pastanu, kjúklingnum og grænmetinu saman, svo bara að henda salatinu, ostinum jarðaberjunum og nachos í rétt áður en það er borðað...:)
ReplyDelete