Friday, October 12, 2012

Spínat-og ostafyllt cannelloni.



Þegar að ég kom heim úr skólanum í gær þá þráði ég eitthvað gott í matinn. 
Ég elska pasta og því var dásamlegur pastaréttur fyrir valinu. Spínat- og ostafyllt canelloni. Þessi réttur er í miklu uppáhaldi hjá Mareni systur minni og það hefði verið ansi gott að fá hana til mín í mat. En því verr og miður þá býr hún í útlandinu. Ég borðaði þó algjörlega fyrir hennar hönd í gær og gott betur en það. Mikil ósköp sem það er gott að borða pasta sem er fyllt með allskyns góðgæti. 

Þessi dásamlegi réttur á rætur sínar að rekja til Ítalíu, en ekki hvað? Ítölsk matargerð heillar mig hvað mest og því væri það algjör draumur í dós að heimsækja Ítalíu einn daginn. Matarferð til Ítalíu er svo sannarlega á draumalistanum. 

Þessi réttur er ótrúlega einfaldur og fljótlegur. Ég mæli því hiklaust með að þið prufið hann um helgina. 
Spínat- og ostafyllt cannelloni. 
Fyrir u.þ.b. þrjá til fjóra

500 g kotasæla
200 g spínat
1 msk ólífuolía
3 msk basilika, smátt söxuð
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
3 – 4 msk rifinn parmesan ostur
Rifinn mozzarella ostur 
Tómata passata frá Sollu ca. Hálf krukka
3/4  dós af söxuðum tómötum frá Heinz, með hvítlauk, oreganó og basiliku.
2 tsk tómatpúrra
Salt og nýmalaður pipar

(á myndinni er chili en ég ákvað að nota það ekki að þessu sinni) 


  1.        Hitið olíu á pönnu við vægan hita. Saxið hvítlaukinn smátt og setjið hann á pönnuna, rétt til þess að mýkja laukinn.

 2.        Bætið spínatinu saman við og leyfið því að malla á pönnunni í tvær mínútur, hrærið lauslega í á meðan.  Kryddið til með salt og pipar. 
 3.        Setjið kotasælu í skál bætið spínat (þerrið spínatið vel áður), basiliku og dásamlegum rifnum parmesan osti saman við.


 4.        Blandið þessu vel saman með og smakkið  ykkur til með salti og pipar.

 5.        Sjóðið lasagneplöturnar eða pastarörin samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, aðskiljið plötur eða rör og setjið til hliðar undir rakan klút. Ég notaði ferskar lasagneplötur að þessu sinni.

        Setjið 2  - 3 msk af fyllingu á hverja plötu. Ég var með sex plötur og því var ég með sex rúllur. Ef þið viljið minni rúllur þá skerið þið plöturnar til. 

6. Rúllið hverri plötu varlega upp, Þekjið botninn á eldföstu móti með sósunni og raðið rúllunum í eldfasta mótið.

Sósan er af einföldustu gerð. 

- Setjið tómata passata, söxuðu tómatana og tómatpúrru  í pott, hitið sósuna við vægan hita í örfáar mínútur. Bætið smá basiliku saman við, kryddið til með salti og pipar. Ég lét sósuna i blandara til þess að hafa hana silkimjúka en það er líka ansi gott að hafa tómatbita í sósunni. Svo þetta er aljört smekksatriði. 


 Hellið sósunni yfir, því meiri sósa því betri verður rétturinn að mínu mati

 7. Dreifið rifnum mozzarella osti yfir réttinn og smávegis af rifnum parmesan osti.

8. Inn í ofn við 180°C í 25 - 30 mínútur. Eða þar til osturinn er orðinn gylltur og fínn.


 Augnyndi. Ilmurinn af réttinum er dásamlegur. 
Pasta, flæðandi ostur og góð sósa. Betra verður það varla. 

 Berið fram með fersku salati og ef til vill snittubrauði. Þetta er án efa réttur sem fær öll andlit til þess að brosa, það er ekkert betra en að sjá bros á fólki þegar að það er ánægt með mat og að heyra "mmm" er náttúrlega punkturinn yfir i-ið.


Ég vona að þið eigið dásamlega helgi framundan og njótið þess að gera vel við ykkur í mat og drykk. 

Góða helgi kæru vinir 

xxx

Eva Laufey Kjaran

2 comments:

  1. Þetta er án efa einn besti pastaréttur sem ég hef smakkað! Takk æðislega fyrir þessa uppskrift :)

    ReplyDelete