Þegar að ég kom heim úr skólanum þá langaði mig í eitthvað svakalega gott. Ég átti nóg af grænmeti og afganga af kjúkling þannig ég ákvað að laga mér speltpizzu með allskyns gúmmilaði.
Ótrúlega einfalt og fljótlegt.
Speltpizzubotn. (Uppskrift frá Sollu á grænum kosti)
250.gr Speltmjöl
2 msk. Ólívu olía
1/2 tsk. Salt
2-3 tsk krydd. (Ég setti basilikku, pipar og steinseljukrydd)
3 - 4 tsk. Vínsteinslyftiduft (líka hægt að nota venjulegt lyftiduft)
125 ml. Heitt vatn
Þurrefnum blandað saman í skál eða það sem mun auðveldara er : Sett í hnoðarann í matvinnsluvélinni. Olíunni bætt saman við og síðan vatninu. Deigið er því næst hnoðað. Smá spelti stráð á borðið og deigið flatt út frekar þunnt. Ég tek hringlótta kökudiskinn minn sem er 25 cm í þvermál og skelli ofan á deigið til að fá hringlaga botn. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og deigið þar ofan á og forbakið við 200°C í 4 mínútur, setjið rakt viskustykki ofan á botnana svo þeir verði ekki að tvíböku. Þessi uppskrift gefur 2 botna með 25 cm í þvermál.
Pizzusósan mín er ansi einföld;
1. msk Tómatpúrré
3. msk olía
1 hvítlauksrif
salt&pipar
1-2 tsk af kryddblöndu (t.d. steinselja, basilikka eða oreganó)
Þessu blandað saman og sett ofan á deigið, því næst skar ég niður kirsuberjatómata, rauðlauk, vorlauk, papriku og sveppi. Steikti grænmetið á pönnu upp úr olíu og skar niður kjúkling sem ég átti í ísskápnum og setti hann sömuleiðis á pönnuna í smá stund.
Gúmmilaðið lagt ofan á pizzubotninn og inn í ofn í 10 mín við 200°C.
Klettasalat, fetaostur og pínu pipar ofan á pizzuna, þá er hún aldeilis tilbúin.
Hún var sérdeilis ljúffeng og ansi fljótleg sem mér þótti agalega fínt.
xxx
No comments:
Post a Comment