Bræður mínir voru að fara aftur til
Noregs í dag, svo í gær þá langaði mig til þess að bjóða þeim í mat. Ég var svolítið lengi
fyrir sunnan í gær svo það var ekki mikill tími sem ég hafði til þess að elda,
þá datt mér í hug mexíkóskt lasagna. Réttuinn er mjög einfaldur og fljótlegur.
Ég hef alltaf notað kjúkling í þann rétt en ákvað að breyta aðeins til og nota
nautahakk í staðinn. Ég dreif mig í búðina, að vísu þurfti ég að fara í tvær ferðir
vegna þess að ég er svo ferlega gleymin. Það er ekkert eins dásamlegt og vera
loksins komin heim, með fulla poka, loksin búin að taka upp úr þeim og átta sig
síðan á því að hafa gleymt mikilvægu hráefni. En sem betur fer þá tókst þetta
vel til, bræður mínir voru mjög ánægðir með réttinn og ég var nú sæl með það.
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af þessu ljúffenga lasagna, ég vona að þið njótið vel kæru vinir.
Mexíkóskt lasagna fyrir fjóra til sex
800 g nautahakk
5 stórar tortillur
1 meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
1 rauð paprika, smátt söxuð
1 gul paprika, smátt söxuð
8 – 10 sveppir, smátt saxaðir
1/4 rautt chili, fræhreinsað og smátt saxað
2 – 3 msk kóríander, smátt saxað
Mexíkósk kryddblanda, taco seasoning mix í pakka
1 dós gular baunir
1 dós niðursoðnir tómatar
350 g salsasósa
4 msk hreinn rjómaostur
Rifinn ostur
Nachosflögur, saltaðar
Salt og pipar
Aðferð:
1.
Skolið grænmetið og skerið það smátt
niður. 2. Hitið olíu í potti við vægan hita, setjið grænmetið í pottinn og
mýkjið. 3. Brúnið nautahakkið á pönnu og bætið kryddblöndunni saman við
samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. 4. Blandið því næst hakkblöndunni saman við
grænmetið í pottinum. Bætið gulu baununum, niðursoðnum tómötum, salsasósunni,
og rjómaostinum saman við. Hrærið vel í. Kryddið til með salti og pipar. 5. Að
lokum saxið þið ferskann kóríander smátt niður og bætið við, leyfið þessu að
malla við vægan hita í nokkrar mínútur. Munið að smakka ykkur til með salti og
pipar.
Leggið tortillaköku í botninn á eldföstu
móti, setjið hakkblöndu þar ofan á og dreifið rifnum osti yfir hakkblönduna.
Leggið síðan aðra tortilluköku ofan á og endurtakið þar til hakkblandan er komin
yfir fimmtu tortillukökuna. Dreifið vel af rifnum osti yfir og saxið ferskt
kóríander, um það bil msk og sáldrið yfir réttinn.
Stingið nokkrum nachos flögum í
réttinn. Setjið réttinn inn í ofn og bakið við 180°C í 25 – 30 mínútur.
Mér finnst best að bera réttinn fram með fersku salati, sýrðum rjóma og guacamole.
Gvakkamóle 'guacamole'
Ég gæti borðað gvakkamóle alla daga með öllu, mér þykir það svo afskalega gott. Það er fátt betra en að fá sér gvakkamóle með söltuðum nachosflögum.
2 meðalstórar lárperur, vel þroskaðar.
Safi úr einni límónu
1 rautt chili, fræhreinsað
Handfylli af kóríander
¼ tsk. cumin (ísl.Broddkúmin)
2- 3 hvítlauksrif
1 meðalstór rauðlaukur
Salt og pipar, magn eftir smekk
2 ferskir tómatar
Aðferð:
Setjið allt í matvinnsluvél og blandið vel saman þar til þetta verður að
fínu mauki. Kryddið til með salti og pipar. Skerið ferska tómata í litla bita og blandið saman við með sleif. Setjið í skál og berið strax fram.
Ferskt salsa ' Pico de gallo'
4 tómatar skornir í litla bita
½ rauðlaukur, saxaður mjög smátt
2 msk. fínsaxaður kóríander
Maldon salt
Safi úr einni límónu.
Blandið öllu vel saman sem er í uppskriftinni og geymið í kæli í 30 mínútur.
Ég vona að þið njótið vel og ég mæli með að þið prófið þessar uppskriftir.
xxx
Eva Laufey Kjaran
Virkilega gaman að lesa bloggið þitt, ég flokka það sem feel good blogg :) Alltaf gaman að skoða góðar uppskriftir og hef prufað nokkrar frá þér og þær verið mjög góðar!
ReplyDeleteKveðja,
Birna
Þetta var æði, takk fyrir mig ;)
ReplyDeleteAldeilis hvað þetta var ljúfengt Eva :)
ReplyDeletekv. Ella
Eldaði þetta í gær, mjög gott. Takk kærlega. Kv. Vilborg
ReplyDeleteEru þetta tvennskonar krydd sem þú notar eða er þetta eitt og sama kryddið?
ReplyDeleteÉg var að enda við að klára að borða og okkur öllum fannst þetta virkilega gott, takk fyrir mig. Kv. Togga (Hárgreiðsludama) :)
ReplyDelete