Tuesday, January 15, 2013

Bragðmikil kjúklingasúpa með eplum, karrí og kókosmjólk.

Ég fór út í matarbúð til þess að kaupa mér hráefni til að útbúa bruschettu með tómötum-og basiliku. En þegar að ég kom í búðina þá var lítið úrval af ferskum kryddjurtum og mér fannst ómögulegt að fara að gera bruschettu án þess að hafa ferska basiliku svo ég þurfti að koma með hugmynd að öðrum rétti til þess að hafa í kvöldmatinn. Þá datt mér í hug súpa sem vinkona mín hefur verið að tala mikið um við mig, já ég og Agla vinkona tölum nærri því eingöngu um mat. Mér þótti þessi súpa einstaklega heillandi og ég mundi svona hér um bil hvaða hráefni áttu að fara út í súpuna. Þá var málið leyst, ég ákvað að hafa súpuna í matinn og sé svo sannarlega ekki eftir því. 
Bragðlaukarnir fá svo sannarlega að njóta sín því súpan er einstaklega bragðmikil og ljúffeng. 

Ég mæli svo sannarlega með að þið prufið þessa uppskrift, súpan á einstaklega vel við á köldu vetrarkvöldi. Það er fátt betra en að gæða sér á ljúffengri súpu á meðan að veðrið er fremur leiðinlegt. 
Bragðmikil kjúklingasúpa með eplum, karrí og kókosmjólk. 
Fyrir 4 - 5.

 2 msk olía
 2 – 2,5 l vatn          
1 laukur, smátt saxaður
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 msk ferskt engifer, rifið niður með rifjárni
1 grænt epli, skorið í litla bita
3 – 4 gulrætur, smátt skornar
6 - 7 stilkar mini-maís, skornir í grófa bita
2 – 3 kjúklingabringur
3 – 4 tsk karrí
4 msk rjómaostur
1 tsk kjúklingakrydd
2 kjúklingateningar
1 dós kókosmjólk
3 tsk tómatpúrra
Salt og pipar, magn eftir smekk

Hitið olíu í potti við vægan hita, steikið laukinn og hvítlaukinn í smá stund. Bætið næst gulrótum, eplabitum og engifer saman við. Kryddið til með salti, pipar og karrí. Hellið vatni saman við og bætið tómatpúrru og kjúklingateningum út í, suðan látin koma upp og súpan látin malla í 10 mínútur. Hitið olíu á pönnu við vægan hita og skerið kjúklingabringurnar í litla bita, steikið kjúklinginn í örfáar mínútur og kryddið til með kjúklingakryddi og ef til vill smá karrí. Bætið kjúklingabitum, kókosmjólk og rjómaosti saman út í súpuna og leyfið henni að ná suðu, leyfið henni að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Persónulega finnst mér best að leyfa súpunni að malla við vægan hita í svolítinn tíma en látið hana þó malla í lágmark 30 mínútur.  Smakkið ykkur til með salti, pipar og karrí.

Berið súpuna fram með sýrðum rjóma og ef til vill söxuðu klettasalati eða kóríander, það gefur súpunni einstaklega gott bragð
Ég passa mig alltaf á því að gera nóg af súpunni svo ég eigi örugglega súpu daginn eftir því að mínu mati eru súpur alltaf bestar daginn eftir. 

Ég vona að þið eigið reglulega huggulegt kvöld framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

2 comments:

  1. Hæ, er súpan maukuð með töfrasprota eða eru grænmetisbitarnir látnir vera í ? :)

    ReplyDelete
  2. hvenær fara baby maís inn útí?

    ReplyDelete