Það hefur verið svokallað inniveður undanfarna daga og þá finnst mér ekkert huggulegra en að koma heim úr skólanum og fara beinustu leið inn í eldhús að dunda mér við matargerð.
Ég bauð bróður mínum og kærustunni hans í mat og við vorum öll sammála um að þetta væri einn sá besti kjúklingaréttur sem við höfum smakkað. Við kláruðum réttinn og það er alltaf góðs viti að mínu mati, þá veit ég að rétturinn var góður. Við sátum svo yfir sjónvarpinu, pakksödd að horfa á landsleikinn sem því miður endaði ekki nógu vel. Þeir standa sig nú alltaf afskaplega vel strákarnir, við getum ekki alltaf unnið :)
En hér kemur uppskriftin að sérstaklega bragðgóðum og einföldum kjúklingarétt sem við vorum svo ótrúlega ánægð með í gærkvöldi. Njótið vel kæru vinir.
Kjúklingur í rjómasósu með beikoni og sveppum
Fyrir 3 - 4 manns.
2 msk ólífuolía
4 kjúklingabringur
1 pk. beikon, skorið í litla bita
8 - 10 sveppir, skornir
2 msk fersk steinselja, smátt söxuð
2 msk ferskt timjan, smátt saxað
1/2 kjúklingateningur
350 ml matreiðslurjómi
salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
1. Skerið sveppina og beikonið í litla bita
2. Hitið olíu við vægan hita, steikið sveppina og beikonið á pönnunni
3. Mér finnst langbest að nota ferskar kryddjurtir.
4. Saxið kryddjurtirnar smátt niður og bætið þeim á pönnuna.
5. Bætið matreiðslurjómanum og kjúklingateningnum saman við, leyfið þessu að malla við vægan hita í nokkrar mínútur.
6. Skolið kjúklingabringurnar, leggið þær í eldfast mót og kryddið þær með salti og pipar.
7. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og inn í ofn við 180°C í 30 - 35 mínútur.
Berið réttinn gjarnan fram með hrísgrjónum, fersku salati og fetaosti.
Sósan var ótrúlega bragðmikil og kjúklingurinn safaríkur. Sósuna hefði ég geta borðað eina og sér, svo góð var hún. Ég á pottþétt eftir að gera hana oftar með öðrum réttum, væri t.d. tilvalin í pastarétt. Beikonið, sveppirnir og fersku kryddjurtirnar vinna svo sannarlega vel saman og útkoman var dásamleg.
Við áttum verulega gott kvöld saman og mér þykir svo vænt um svona kósí kvöld. Góður matur og góður félagsskapur er galdurinn að góðu kvöldi. Ég mæli með að þið eldið eitthvað gott og bjóðið fjölskyldu eða góðum vinum í mat á næstu dögum, það gefur lífinu svo sannarlega lit.
xxx
Eva Laufey Kjaran
xxx
Eva Laufey Kjaran
Prófaði þennan í kvöld og við erum slefandi eftir máltíðina :) Einfalt og sérlega ljúffengt :)
ReplyDeleteKæra Eva Laufey ! Rétturinn er frábær, takk fyrir ! Ég sleppti reyndar beikon-inu og bætti bara meira grænmeti með sveppunum og rétturinn varð ekki síðri við það. Þú ert frábær og síðan þín líka og ein af mínum uppáhalds :-) Kær kveðja, Sigrún
ReplyDeleteVar að prufa þennan & varð sko ekki fyrir vonbrigðum :) Virkilega fljótlegur - einfaldur & góður :) Takk fyrir mig !
ReplyDeleteSvakalega góður réttur á örugglega eftir að elda hann oftar. Takk fyrir að deila honum :)
ReplyDeleteÞessi er geggjaður hún Svafa mín gerði hann.:)
ReplyDeleteÉg prófaði þennan rétt í kvöld, rosalega góður réttur, takk fyrir að deila :)
ReplyDeleteÉg eldaði þennan rétt í gær og öll fjölskyldan hámaði þetta í sig (sem er alls ekki sjálfgefið , er með tvö matvönd börn ;) þú ert æðisleg :)
ReplyDelete