Tuesday, January 8, 2013

Kjúklinga-og spínatbaka.

Þegar ég á afgang af kjúkling þá finnst mér tilvalið að búa til kjúklinga- og spinatböku. Bakan er bæði mjög einföld og svakalega góð. Þið getið auðvitað notað hvaða fyllingu sem þið viljið og það er ágætt að nota bara það sem þið eigið til í ísskápnum hverju sinni. Þið getið notað spelt eða venjulegt hveiti í botninn á bökunni. Það fer eftir ykkar smekk. Mæli með að þið prófið að útbúa gómsæta böku. 

Kjúklinga-og spínatbaka. 

Botn:
  • 2 bollar fínmalað spelt, bollinn sem ég notaði rúmar 237 ml.
  • 100 g smjör, skorið í teninga
  • 100 ml kalt vatn 
  • smá salt 


Aðferð:

Skerið smjörið í litla teninga, blandið smjörinu, speltinu og saltinu saman með höndunum í skál. Bætið síðan vatninu saman við smám saman. Smjörið þarf að blandast vel saman við speltið svo það tekur nokkrar mínútur. Sláið deiginu upp í myndarlega kúlu , setjið plastfilmu utan um og geymið í kæli í lágmark 30 mínútur.

Takið deigið út úr ísskápnum og fletjið út. Smyrjið bökunarform og setjið deigið í formið. Potið nokkrum sinnum í deigið með gaffli og bakið við 180°C í 8 - 10 mínútur. 

 Fylling:


  • 1 msk ólífuolía
  • 400 - 500 g kjúklingakjöt
  • 1 rauð paprika, smátt skorin
  • 1/2 rauðlaukur, smátt skorinn
  • 2 bollar spínat, smátt skorið
  • 2 tómatar
  • 1 hvítlauksgeiri, pressaður
  • 1 lítil dós kotasæla
  • 4 egg
  • 80 ml mjólk
  • salt og nýmalaður pipar 
  • 1 tsk ítölsk kryddblanda
  • rifinn mozzarella ostur, magn eftir smekk

 Aðferð:

Hitið olíu í pönnu, skerið grænmetið mjög smátt og steikið við vægan hita. Þegar grænmetið er orðið mjúkt þá bætið þið spínatinu saman við og foreldaða kjúklingnum og leyfið þessu að malla á pönnunni í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hitanum og blandið einni dós af kotasælu saman við. Kryddið til með salti og pipar. Hellið blöndunni í bökuskelina. Pískið egg og mjólk léttilega saman og hellið yfir blönduna. Dreifið osti yfir í lokin og bakið við 180°C í 30 - 35 mínútur, eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn.  

Berið bökuna fram með fersku salati og góðri dressingu 

 Lyktin af bökuni er dásamleg. Ég fékk mjög gott bökunarform  í IKEA á mjög fínu verði. Það er sérlega gott að baka bökur í þessu formi. 

 Einföld, fljótleg og ljúffeng máltíð.

xxx

Eva Laufey Kjaran

4 comments:

  1. Get ég notað venjulegt hveiti í staðinn fyrir spelt?
    og þá sama magn bara?

    kv.
    Freyja

    ReplyDelete
  2. Já þú getur notað venjulegt hveiti og notar þá sama magn.

    Bestu kveðjur,

    Eva Laufey

    ReplyDelete
  3. ohhhhh mig langar svo íííí...... En ekki séns að ég nenni að búa þetta til :)
    Geturu ekki fryst og sent? :)

    kv. úr Grundó

    ReplyDelete
  4. This comment has been removed by a blog administrator.

    ReplyDelete