Sunday, September 20, 2015

Brjálæðislega góðar súkkulaðibitakökur á 20 mínútum



Helgin hefur verið frekar róleg á þessu heimili og 'to do' listinn minnkaði ekkert, það freistaði miklu meira að hanga á kaffihúsum, lita, baka eða taka leggju með Ingibjörgu Rósu en að mála vegg, setja upp gardínur og þið vitið.. allt sem verður að gerast strax, helst í gær. Stundum er bara alveg ágætt að taka rólega daga og plana ekki yfir sig, 'to do' listinn fer ekkert en tíminn er núna til að njóta með fólkinu okkar. Ég þarf að minnsta kosti að minna sjálfa mig á það af og til, það þarf ekkert alltaf allt að vera samkvæmt planinu og það er bara fínt að taka letidaga. 

Og fyrst við erum byrjuð að tala um letidaga þá verð ég að deila með ykkur uppskrift að einstaklega gómsætum súkkulaðibitakökum sem eru bæði mjög einfaldar og fljótlegar. Tilvalið á letidögum já eða bara þegar okkur langar í eitthvað gott. Mæli með að þið prófið þessar og ég vona að þið njótið vel.



Súkkulaði- og hafrakökur 

  • 200 g smjör, við stofuhita
  • 2,5 dl púðursykur
  • 3 Brúnegg
  • 2 tsk vanilla (extract, dropar eða sykur)
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt 
  • 5 dl Kornax heilhveiti
  • 4 dl haframjöl
  • 150 g súkkulaði
Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C.

1. Þeytið saman smjör og sykur þar til blandan verður létt.
2. Bætið einu og einu eggi saman við og þeytið vel á milli. 
3. Blandið þurrefnum og vanillu saman og þeytið. 
4. Saxið súkkulaði og blandið við með sleikju. 
5. Mótið kökurnar með matskeiðum og setjið á pappírsklædda ofnplötu. 
6. Bakið við 180°C (blástur) í 10-12 mínútur. Kælið í örlitla stund áður en þið berið kökurnar fram. Njótið með ísköldu mjólkurglasi. 









Ég vona að þið eigið gott sunnudagskvöld í vændum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.




No comments:

Post a Comment