Það eru nokkrar kökur sem ég baka aftur og
aftur, það er súkkulaðikaka, gulrótarkaka og svo þessi eplakaka. Kökur sem ég
fæ aldrei leið á og minna mig á ljúfar stundir með fjölskyldu og vinum. Þessi
eplakaka yljar manni að innan og kanililmurinn er hreint út sagt dásamlegur.
Eplakaka með þeyttum rjóma
- 200 g smjör
- 3 egg
- 220 g hveiti
- 220 g sykur
- 1 tsk lyftiduft
- 2 tsk vanilla extract eða sykur
- 1 dl rjómi
- 2 græn epli
- 2 msk sykur
- 1,5 tsk kanill
Aðferð:
- Flysjið eplin, kjarnhreinsið og skerið í sneiðar. Blandið saman 2 msk af sykri og 1 tsk af kanil, sáldrið yfir eplin og leyfið þeim að liggja í kanilsykrinum í svolitla stund.
- Hrærið saman smjör og sykur þar til blandan verður létt og ljós, bætið eggjum saman við einu í einu.
- Blandið þurrefnum saman og bætið saman við eggjablönduna. Hellið rjómanum saman við ásamt vanillu.
- Smyrjið hringlaga kökuform og hellið deiginu í formið, raðið eplunum ofan á og bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur.
- Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
Er í lagi að frysta eplakökuna?
ReplyDelete