Bláber eru bæði ótrúlega holl og góð, þau eru stútfull af andoxunarefnum og bæta meltinguna. Ég elska bláber og nota þau mikið í bæði matargerð og bakstur, svo er auðvitað frábært að fá sér bláber sem nasl milli mála. Eitt af því besta sem ég fæ mér er bláberja boozt, ískalt og svakalega frískandi. Dóttir mín sem er 14 mánaða að verða 15 mánaða á næstu dögum (hjálpi mér hvað tíminn er fljótur að líða) fær boozt með mér og finnst þessi einstaklega góður. Við fáum okkur oft svona drykk í kaffitímanum eftir vinnu. Mæli svo sannarlega með að þið prófið þennan drykk og þori ég að veðja að þið eigið eftir að búa hann til aftur og aftur.
Bláberja boozt
- 200 g Bláberjaskyr
- Handfylli af bláberjum
- Einn banani
- Ein msk af hörfræjum
- Klakar
- Möndlumjólk, magnið fer eftir smekk (fer eftir því hvað þið viljið hafa drykkinn þykkan)
Aðferð:
1. Setjið öll hráefnin í blandarann í smá stund eða þar til drykkurinn er silkimjúkur. Mér finnst best að setja nokkra klaka út í drykkinn.
2. Hellið drykknum í glas og njótið.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
No comments:
Post a Comment